Að
raða vel...
fyrir framan mig eru hillur sem eru merktar líf mitt, tilfinningar
og framtíðin.
á gólfinu fyrir framan eru kassar sem ég þarf
að opna og taka upp úr, í þessum kössum
er líf mitt, lífsreynsla mín og jafnvel óvelkomin
atvik.
Fyrsta verk mitt er að opna alla þessa kassa og horfast
í augu við innihaldið, það er ekki auðvelt
verk og því verð ég að gera það
ein, enginn annar veit hvernig á að opna kassana og það
er svo margt brothætt í þeim.
Næst er að horfast í augu við innihaldið.
Tína upp úr kössunum og fara í gegnum
innihaldið, ég þarf að taka hvern hlut og skoða
hann og spá í hvar ég á að setja
hann.
Hver hlutur hefur merkingu fyrir mig og þarf ég minn
tíma til að skoða í gegnum kassana til að
finna það sem ég vil setja upp í hillurnar,
setja í geymslu eða henda. Það er mitt verk
að sjá fegurðina í því sem ég
vil halda og mikilvægi þeirra hluta sem ég tel
að verði að geyma.
Það er mitt verk að vera meðvituð um að
geymslan er ekki endanlegur staður og það þarf
að fara þangað reglulega til að tékka á
því hvort eitthvað sem þar er hafi orðið
fallegra með tímanum eða sé í lagi
að henda, það er verk sem ég þarf ekki
að gera ein því einhver annar gæti bent mér
á fegurðina sem ég sá ekki í fyrstu
eða sýnt mér gallann sem ég sá ekki.
Þegar kemur að því að raða í
hillurnar þá fyrst er ég tilbúin fyrir
utanaðkomandi aðstoð.
Á meðan ég eða við saman röðum
í hillurnar get ég talað eðlilega um hvað
hver hlutur merkir og gildi hans fyrir mig. Út frá
því verða til umræður um hlutina og vegna
þess að talað var um þá og spáð
í þeim, þá kemst ég að því
að sumir hlutir eiga að fara í geymsluna eða
í ruslið, eins ætti ég að ná
í einhverja hluti niðri í geymslu og setja í
hillurnar eða jafn vel henda. Það að raða
í hillurnar getur tekið tíma og verður að
vanda sig við það. Á meðan raðað
í hillurnar þá er verið að raða
lífi mínu, tilfinningum og framtíð minni
í það sem ég mun á endanum þurfa
að stilla upp fyrir framan aðra og segja: svona er ég.
by Kristrún Huld Hafberg ©
|